Sunnudagur, 24. desember 2006
Gleðileg jól
Gleðileg jól og farsælt komandi ár!!! Vonandi hafið þið öll það rosalega gott yfir hátíðarnar. Ég er sem stendur í fullum undirbúningi þar sem jólin koma ekki fyrr en á morgunn hjá mér. Jeff er samt voða sætur í sér og óskaði mér gleðilegra jóla í dag þar sem í raun er í dag jólin mín :)
Í kvöld förum við svo til mömmu Jeffs í matarboð en hefðin er að daginn fyrir jólin kemur fjölskyldan saman 8 stykki og 2 börn og skiptast á gjöfum, nema í staðinn fyrir að kaupa 8 gjafir fyrir alla fullorðna fólkið þá kaupir hvert par tvær, stelpu og strákagjöf. Í ár var ákveðið að hætta við það sem okkur fannst mjög sniðugt þar sem a) við spörum pening og b) að finna gjöf sem hentar öllum er ekki það auðveldasta í heimi svo flestir enda með drasl sem þau hafa lítinn áhuga á. En þar sem fjölskylda Jeffs sérstaklega mamma hans og Michelle yngsta systirin geta ekki ákveðið hluti og staðið við þá, þá var hætt við að hætta við og núna þurftum við að kaupa gjafir handa fólkinu. Við fórum í hálfgerða fýlu þar sem við vorum auðvitað ekki hafð með í ráðunum og keyptum refsigjöf eins og sést á myndinni sem fylgir með, búddalampa!! hehe, planið er svo fyrir næstu jól að vera einhverstaðar annarsstaðar, helst á Íslandi eða jafnvel í Flórida hjá ömmu hans ef Ísland er út úr myndinni.
Dagurinn hjá okkur á morgunn verður frekar annasamur, við auðvitað vöknum snemma og opnum jólagjafirnar, síðan ætla ég að baka pönnukökur handa okkur í morgunmat svo við getum haft það gott en síðan förum við í hádegismat hjá tengdamömmu Nicki, en það er jólaboðið okkar. Vanalega í svona veislum kemur hver og einn með eitthvað að skipun þess sem heldur það, okkur var sett að koma með hvítvín....þeir sem þekkja mig vita að ég hef ekki hundsvit á víni og Jeff þess þá heldur, hvorugt okkar drekkur vín. Við keyptum því einu flöskuna sem við fundum í vínbúðinni sem stendur á white hehe reyndar er liturinn á víninu ljósrautt en það stendur white (hvítt) á flöskunni svo það hlýtur að vera hvítvín :) Síðan um kvöldið koma systkini Jeffs og pabbi hans til okkar þar sem við skiptumst á gjöfum, ég sá ekki fyrir mér að nokkur væri svangur eftir hádegismatinn en það er vanalega mjög veglegt svo við ákváðum bara að hafa snarl sem fólk getur nartað í, enda var því hálf þröngvað upp á okkur að halda boðið og engin af systkinum Jeffs né Jeff hefur mikinn áhuga á að hitta pabba sinn en hann er ekki beint fyrirmyndapabbi. Hann lét þau ganga í gegnum súrt og sætt, aðallega súrt á meðan þau voru að alast upp, og í raun eru þau enn að vinna úr flækjunum sem hann olli þeim. Svo dagurinn á morgunn fer í matarboð með allt of mörgu fólki, koma heim gera allt klárt fyrir næstu lotu og sitja svo undir vandræðalegum samræðum þar sem ekki er hægt að tala um neitt við pabba hans annað en elgi, en hann er með maníu fyrir elgjum...
Mig langar heim um jólin :(
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Gleðileg jól, dúllan mín, og vonandi rætist úr jólunum hjá ykkur! Stórt jólaknús og heyrumst bráðum, Nina
Nina (IP-tala skráð) 25.12.2006 kl. 17:11
Gleðileg jól elsku besta Valan mín
Varðandi vínið.. er ljósrauður ekki bleikur? Þá grunar mig að þú hafir keypt rósavín, það er ekkert verra! Það situr mér alltaf í fersku minni ferð okkar þriggja (mín, Söru og þín) á veitingastaðinn Madonnu á Rauðárstíg þar sem við tókum okkur til og KLÁRUÐUM rósavínsbirgðarnar og vorum gerðar útlægar þaðan for good
-Allavega vorum við eitthvað oooofurlítið í glasi eftir þá útreið haha!
Bestu kveðjur til Jeffs !
alman (IP-tala skráð) 27.12.2006 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.