Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Kveðja
Í gær kvaddi Ársæll, maður Pöllu Töntu systir mömmu þennan heim. Hann var langt leiddur af krabbameini og er því á betri stað núna. Ég man eftir því þegar ég var lítil í kringum jólin en þá fórum við alltaf í jólaboð til Ársæls og Pöllu Töntu sem var alltaf jafn gaman. Einnig áttu þau ljósabúð á laugarveginum og bjuggu á hæðinni fyrir ofan og ég vissi ekkert jafn skemmtilegt en að heimsækja þau þangað þar sem í mínum barnshuga var það rosalega flott að búa í búðinni sinni :)
Hugur minn liggur hjá Pöllu Töntu, börnum og barnabörnum, þau voru gift í yfir 50 ár sem í nútíma samfélagi er mjög aðdáendavert. Við kveðjum þig Ársæll héðan úr Bandaríkjunum með góðum hug þar sem við vitum að þér líður vel núna.
"En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur
og Guð, faðir vor,
sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun
og góða von,
huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki
og orði."
(II. Þessaloníkubréf 2:16-17)
Laugardagur, 6. janúar 2007
Snjór, snjór og meiri snjór
Í gær kom enn einn snjóstormurinn til okkar hérna í Denver, en þegar snjóstormurinn kom í fyrsta sinn var skólaumdæmið hans Jeffs með þeim síðustu að loka þrátt fyrir almannavarnir um að allt ætti að vera lokað nú þegar og allir starfsmenn sendir heim til að koma í veg fyrir öngþveiti og að fólk sæti fast á miðjum hraðbrautunum og yllu slysi. Forstöðumaðurinn fékk að heyra það að hafa lokað svona seint síðast að í gær var hann sá fyrsti til að loka, eða kl 5 um morguninn. Jeff greyið á að mæta kl 5, svo hann keyrir í vinnuna til að keyra heim, en sem betur fer þar sem skilyrðin voru orðin hættuleg. Vegurinn var svo sleipur að þegar hann var að koma niður brekku þá rann hann stjórnlaus á umferðareyju, sem betur fer voru engar skemmdir eða meiðsl á Jeff né bílnum svo það endaði vel, en engu að síður, Valan er að drukkna í snjó hérna en líður samt vel þar sem þetta er ekki rigning!!
Í ár þá skrifaði ég auðvitað fullt af jólakortum, allt of seint eins og vanalega, en þegar ég ætlaði að senda þau út fengum við tvo snjóstorma á okkur svo ekkert fór út sennilega fyrr en á nýju ári þar sem lítið fór út úr Colorado heh, ég ákvað því að sleppa því að senda jólakort í ár en ég vil þakka þeim sem sendu mér jólakort það er alltaf jafn gaman að fá jólakort þegar maður er svona langt í burtu!!
Ég vil einnig senda út bænarefni, maður frænku minnar er mikið veikur inn á sjúkrahúsi með krabbamein á lokastigi, ég vil biðja ykkur að biðja fyrir honum og fjölskyldu hans en þetta eru erfiðir tímar hjá þeim sem stendur.
Mánudagur, 1. janúar 2007
Gleðilegt Nýtt Ár!!!
Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla!!! Hér er klukkan að verða 6 að kvöldi svo tæknilega séð er komið árið 2007 á Íslandi, en ég er smá á eftir :) Ég er að hafa mig til að fara til tengdó þar sem við fögnum áramótunum, en við íhuguðum að fara niður í miðbæ en þar sem Jeff er með útrunnið bílaskírteini og ég ekki með bílaskírteini þá ákváðum við að láta það bíða betri tíma. Hérna eru líka flugeldar bannaðir en það er aldrei að vita að einhver hafi komist höndum yfir flugelda. Ástæðan fyrir að flugeldar eru bannaðir hérna er að það er mjög þurrt loftslag hérna og auðvelt að koma af stað skógareldum, og hvað er betra en flugeldar til að koma af stað bruna. En allavega,
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 28. desember 2006
Jólin búin
Þá eru jólin búin og bara áramótin framundan. Við höfðum það alveg ágætt um jólin þrátt fyrir að hafa farið í 3 jólaboð á 2 dögum. Búddalampinn sló í gegn mamma Jeffs fékk Búddalampann og var alveg að fýla húmorinn í kringum gjöfina, Bricen 4 ára strákurinn hennar Michelle lét allt dótið sem hann hafði fengið detta og sat dáleiddur fyrir framan lampann hehe. Á jóladag fórum við svo til Sylviu sem er tengdamamma Nicki, þar var kalt hlaðborð með allskonar góðgæti sem við náðum að gæða okkur á, það var alveg ágætt en við héldum að það yrðu bæði þeirra fjölskylda og okkar, en í staðinn voru að bara við og börnin þeirra. Síðan héldum við heim þaðan og fórum að gera íbúðina okkar klára en við fengum gesti um kvöldið, pabbi Jeffs og kærastan hans komu ásamt Nicki, Bo, Michelle og Kai og tveimur börnunum þeirra og svo voru ég og Jeff svo allt í allt náðum við að troða 10 manns í litlu holuna okkar. Það gekk bara ljómandi ég átti ennþá íslenskan bjór eftir síðan pabbi var í heimsókn svo hann var dreginn fram, vanalega tek ég líka fram harðfisk og brennivín þegar fólk kemur í heimsókn en þar sem það voru jól þá ákvað ég að vera góð :) Við vorum með hlaðborð þar sem ég bakaði litlar mini pizzur og allskonar puttamat og smákökur.
Það er eitt sem ég sakna frá Íslandi um jólin er góði maturinn, hér virðist ekki vera eins lagt upp úr að hafa góðan og hátíðlegan mat. T.d. á aðfangadag hjá tengdó var lasagna, ég var með litlar mini pizzur þar sem ég var beðin um að hafa pizzur og eftir að ég var búin að hneykslast á að hafa pizzur á deginum sem ég er vön að borða hangikjöt þá gaf ég eftir þar sem ég hef ekki efni á að gefa 10 manns að borða eitthvað fínt. En ég sakna hátíðarmatarins, kannski er þetta svona bara hjá þessari fjölskyldu en ekki annarri en eitt er víst að ég kem til með að breyta þessu :)
Á þriðjudaginn höfðum við Jeff það svo gott hérna heima saman, við gerðum nákvæmlega ekki neitt annað en að hvíla okkur. Leika okkur í tölvunni, lesa og borða. Ég lét hann vita að það væri annar í jólum eða "Second of Christmas" en hann bara rúllaði augunum og fannst við voða asnaleg hehe.
Rétt fyrir jól fengum við góðan slatta af snjó til okkar hérna í Denver, svo slæmt að borgin lamaðist, allt fór á kaf. Tveimur dögum seinna var fólk búið að moka sig út þar sem jahh, maður þurfti að klára að versla allt fyrir jólin. Í dag á svo annar snjóstormur að koma yfir ríkið og talað er um að það eigi að vera alveg jafn slæmt og síðast svo við ætlum að reyna að fara út í búð áður en það byrjar að snjóa og versla allt sem við þurfum framyfir jól, þá getum við bara lokað okkur inn í litlu holunni okkar og mokað okkur svo út þegar Jeff þarf að fara aftur að vinna :)
Vonandi hafið þið það gott yfir hátíðarnar!
Hátíðarkveðja frá USA!
Vala og Jeff
Sunnudagur, 24. desember 2006
Gleðileg jól
Gleðileg jól og farsælt komandi ár!!! Vonandi hafið þið öll það rosalega gott yfir hátíðarnar. Ég er sem stendur í fullum undirbúningi þar sem jólin koma ekki fyrr en á morgunn hjá mér. Jeff er samt voða sætur í sér og óskaði mér gleðilegra jóla í dag þar sem í raun er í dag jólin mín :)
Í kvöld förum við svo til mömmu Jeffs í matarboð en hefðin er að daginn fyrir jólin kemur fjölskyldan saman 8 stykki og 2 börn og skiptast á gjöfum, nema í staðinn fyrir að kaupa 8 gjafir fyrir alla fullorðna fólkið þá kaupir hvert par tvær, stelpu og strákagjöf. Í ár var ákveðið að hætta við það sem okkur fannst mjög sniðugt þar sem a) við spörum pening og b) að finna gjöf sem hentar öllum er ekki það auðveldasta í heimi svo flestir enda með drasl sem þau hafa lítinn áhuga á. En þar sem fjölskylda Jeffs sérstaklega mamma hans og Michelle yngsta systirin geta ekki ákveðið hluti og staðið við þá, þá var hætt við að hætta við og núna þurftum við að kaupa gjafir handa fólkinu. Við fórum í hálfgerða fýlu þar sem við vorum auðvitað ekki hafð með í ráðunum og keyptum refsigjöf eins og sést á myndinni sem fylgir með, búddalampa!! hehe, planið er svo fyrir næstu jól að vera einhverstaðar annarsstaðar, helst á Íslandi eða jafnvel í Flórida hjá ömmu hans ef Ísland er út úr myndinni.
Dagurinn hjá okkur á morgunn verður frekar annasamur, við auðvitað vöknum snemma og opnum jólagjafirnar, síðan ætla ég að baka pönnukökur handa okkur í morgunmat svo við getum haft það gott en síðan förum við í hádegismat hjá tengdamömmu Nicki, en það er jólaboðið okkar. Vanalega í svona veislum kemur hver og einn með eitthvað að skipun þess sem heldur það, okkur var sett að koma með hvítvín....þeir sem þekkja mig vita að ég hef ekki hundsvit á víni og Jeff þess þá heldur, hvorugt okkar drekkur vín. Við keyptum því einu flöskuna sem við fundum í vínbúðinni sem stendur á white hehe reyndar er liturinn á víninu ljósrautt en það stendur white (hvítt) á flöskunni svo það hlýtur að vera hvítvín :) Síðan um kvöldið koma systkini Jeffs og pabbi hans til okkar þar sem við skiptumst á gjöfum, ég sá ekki fyrir mér að nokkur væri svangur eftir hádegismatinn en það er vanalega mjög veglegt svo við ákváðum bara að hafa snarl sem fólk getur nartað í, enda var því hálf þröngvað upp á okkur að halda boðið og engin af systkinum Jeffs né Jeff hefur mikinn áhuga á að hitta pabba sinn en hann er ekki beint fyrirmyndapabbi. Hann lét þau ganga í gegnum súrt og sætt, aðallega súrt á meðan þau voru að alast upp, og í raun eru þau enn að vinna úr flækjunum sem hann olli þeim. Svo dagurinn á morgunn fer í matarboð með allt of mörgu fólki, koma heim gera allt klárt fyrir næstu lotu og sitja svo undir vandræðalegum samræðum þar sem ekki er hægt að tala um neitt við pabba hans annað en elgi, en hann er með maníu fyrir elgjum...
Mig langar heim um jólin :(
Fimmtudagur, 21. desember 2006
Jólasnjór
Miðvikudagur, 20. desember 2006
Jeff og búðir
Ef það er eitt sem ég lærði síðustu helgi er það að taka Jeff ekki með að versla matvörur. Ég er vanalega sú sem fer og versla þar sem honum finnst það óendalega leiðinlegt, en í þetta sinn dró ég hann með þar sem ég nennti ekki ein. Það hefur gerst áður að ég hef dregið hann með og í hvert skipti man ég afhverju ég tek hann ekki með, svona eins og þegar maður fer á McDonalds, maður heldur að það sé ekki eins slæmt og maður hélt sem maður er svo illilega minntur á afhverju maður forðast McDonalds eins og heitan eld. Drengurinn keypti hálfa búðina! Síðan við fluttum hingað höfum við þurft að herða sultarólina til að láta hlutina ganga upp og þó við höfum meira milli handanna núna þá er ég enn ekki alveg tilbúin að losa ólina að fullu. Meðal annars sem okkur endilega vantaði var allskonar snakk, gosdrykkir og það besta, frosnar pulsur á priki...
Hann var annars rosalega sætur í sér í dag, mér hálfleiddist eitthvað og var að reyna að finna mér eitthvað að gera svo ég þyrfti ekki að þrífa (sem þarf að gera) svo hann ákvað að gefa mér eina jólagjöf snemma, ekkert smá mikið krútt en það var bók :)
Annað sætt, Jeff vinnur hjá skólaumdæmi sem tölvutæknigúrú og þar sem skólarnir eru í fríi yfir hátíðarnar þá er ekkert að gera hjá honum en samt þarf hann að mæta í vinnuna. Drengurinn ákvað að dunda sér við að læra íslensku, nema ekki á einfaldasta máta heldur tók hann nokkra af jólageisladiskunum sem mamma og Erlingur sendu mér og reyndi að læra íslensku út frá Nóttin var sú ágæt ein hehe. Það eina sem hann lærði var hvað nótt þýðir.
Á mánudaginn fórum við til Nicki en systkinin voru þar samankomin þar sem pabbi þeirra var að láta þau velja sér jólagjöf. Hann er áhugaljósmyndari og ákvað að gefa þeim öllum eina mynd eftir sig. Ég var auðvitað dregin með þar sem Jeff greyið þorði ekki að taka svona ákvörðun án mín, enda erum við að tala um manninn sem vildi hengja plasthamar upp á vegg. Pabbi hans tekur aðallega náttúrulífsmyndir svo það var um margt fallegt að velja. Jeff (ég) valdi mynd sem er með grænum bakgrunni og þremur hvítum fallegum blómum á. Mjög falleg mynd en þetta er mynd af kaktus sem blómastrar bara á 20-25 ára fresti :) Við hittumst svo hérna heima hjá mér um kvöldið 25 des og höldum jólin þá með pabba hans, en um daginn þá förum við í jólahádegismat til tengdamömmu Nicki, en fjölskylda Bo's og okkar er mjög náin og eyðir oft hátíðum saman, síðustu jól voru haldin þar líka.
Það eru komnir nokkrir pakkar undir tréð Líf til mikilla óánægju en henni finnst með einsdæmum gott að lúlla þar undir. Ég keypti stóru jólagjöfina handa Jeff í gær en hann fær DVD skrifara sem er spilari líka við tölvuna sína sem hann byggði sér sjálfur, síðan fær hann nokkrar dvd myndir frá mér líka, en hann bað um dvd myndir í jólagjöf svo það verður gaman að sjá svipinn á honum þegar hann fær stóru gjöfina líka. Líf er búin að taka algjöru ástfóstri við fótunum á Jeff, hún eltir hann á röndum og þegar hann stoppar þá nuddar hún sér upp úr tánum á honum og ef hann stendur kyrr nógu lengi fer hún að velta sér í kringum hann heheh, mér finnst þetta auðvitað stórfyndið en honum ekki eins þar sem hann getur varla tekið eitt skref án þess að detta um köttinn. Furðulegur köttur.
Þeir sem fá frá mér jólakort og jólagjafir verðið að bíða þolinmóð. Ég sem byrjaði í nóvember til að vera búin fyrir jól er ekki enn búin. Það er einn pakki farinn af stað til Íslands, en ég var í vandræðum með hinn pakkann og stærð á pappakassa en þeir sem ég keypti voru of litlir, þannig gjafir og jólakort koma seint :P en hey; Betra seint en aldrei!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. desember 2006
Veisla
Í dag var veisla hjá litlu fjölskyldunni, mamma og Erlingur sendu okkur Lambalæri eins og kom fram í síðustu færslu og í dag var það eldað. Það heppnaðist alveg stórvel svo núna sitjum við afvelta eftir að hafa gætt okkur á íslensku lambalæri, sykurbrúnuðum kartöflum og salati. Reyndar er Jeff enn að, en ég er pakk pakk södd. Við ákváðum að bjóða ekki restinni að fjölskyldunni þar sem við héldum að við værum ekki með nóg fyrir 8 fullorðna, og ég held við höfum haft rétt fyrir okkur (enda bara meira handa okkur núna hehe). Jeff vill koma á fram sérstaklegu þakklæti til Mömmu og Erlings fyrir lærið en honum finnst það sjúklega gott :)
Í gær fór ég út með Nicki tengdasystir og vinkonu hennar sem er í heimsókn í Denver, einnig hittum við aðra vini þeirra sem eru rosa hress. Við fórum á bar/veitingarhús ég er ekki alveg viss hvort það er, en þar fékk ég andarsalat, einstaklega gott en ég hef ekki fengið önd síðan ég fór með mömmu og kórnum til Prag. Við skemmtum okkur konunglega enda eru allir barir og veitingarhús hérna orðnir reyklausir sem er stór plús svo maður hóstar ekki út úr sér lungun bara við að fara aðeins útfyrir hússins dyr :)
Þar sem það eru svo margir í fjölskyldunni þá er hefð að hvert par kaupir stelpu og strákagjöf, þannig að maður þarf bara að koma með 2 pakka í staðinn fyrir 8 fyrir jólin, síðan á aðfangadag sem er dagurinn fyrir jólin hér komum við saman og förum í pakkaleik sem ræður hver fær hvaða pakka. Mjög skemmtilegt, nema í ár höfðu þau ákveðið að gera ekki neitt fyrir jólin, sennilega þar sem yngsta systir Jeffs er í fjárhagsklípu, síðan var ákveðið að eftir allt gera stelpu og strákagjöf, það eina er að þau gleymdu að segja okkur frá bæði að það væri hætt við og það væri hætt við að hætta við hehe. Þetta er ekki óalgengt í þessari fjölskyldu en þau eru gjörsamlega óhæf að gera nokkurs konar áætlanir. Þegar það eru gerðar áætlanir þá breytast þær allavega 10 sinnum áður en það kemur að því og síðan er áætlunni breytt allavega einusinni til tvisvar í viðbót. Okkur Jeff finnst þetta einstaklega pirrandi svo við skiptum okkur ekkert af breytingunum en biðjum þau bara að láta okkur vita hver lokaákvörðunin er :P
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. desember 2006
Jedúddamía
Mamma og Erlingur sendu mér pakka á stærð við hús!! Og þvílíkt góðgæti í honum! Nammi endalaust af nammi, ég er núna að gæða mér á lakkrísmolum sjúklega góðir, súkkulaði með fljótandi lakkrís inn í!! Ekki nóg með það fékk ég líka lambalæri og hamborgarahrygg, íslenska jólasveinastyttur sem eru í sama safni og ég á af hangandi jólasveinum, fjóra geisladiska, ég fékk Frostrósir Bestu lögin (sem ég er að hlusta á núna Jeff til mikilla skemmtunar), Regína Ósk, Í djúpum dal; 100 íslensk jólalög fyrir alla fjölskylduna og Álfar og Fjöll (sem fer næst inn). Kisa fékk líka nammi en hún fékk harðfisk hehe, það verður skemmtilegt þegar ég opna þann pakka og sé hvort hún vill fá sér smá smakk, en síðasti pokinn sem ég fékk af harðfisk var hent af eiginmanninum á meðan hann kleip fyrir nefið á sér að kafna úr harðfisksfýlu hehe! Bandaríkjamenn skoh, kunna ekki að meta íslenskt góðgæti! TAKK MAMMA OG ERLINGUR!!!!!
Annars er allt gott að frétta héðan, ég fór í gær til Nicki og við bökuðum tvær sortir, rosalega góðar, súkkulaðismákökur sem er svo dýft í súkkulaði hehe en ekki hvað! Og sítrónusmákökur sem eru líka rosalega góðar. Við komust einnig að því ef við blöndum sítrónudeiginu saman við súkkulaðideigið þá kemur út hið besta deig til að borða! :D
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 7. desember 2006
Loksins!
Loksins náði ég að baka almennilegar smákökur! Ég hef reynt við kókostoppana hennar mömmu en þar sem ég fann ekki kókos sem var ekki hálfblautur og fastur saman þá varð uppskriftin of blaut, og það er eitthvað ekki rétt við mælingarnar frá grömmum yfir í Ounces svo þær heppnuðust aldrei. Ég reyndar bakaði súkkulaðisúkkulaðikökur sem eru eiginlega of mikið kakóbragð af fyrir minn smekk. En í gær bakaði ég bandaríska tegund af smákökum sem Jeff bað um, en ég veit eiginlega ekki hvað það heitir á íslensku, það er haframjöl í þeim og svokallað butterscotch. Þær eru mjög góðar og ég virðist hafa bakað frekar stóra uppskrift því ég var í allan gærdag að koma þeim á pönnu til að bakast :P En blandarinn sem Mamma gaf mér virkar frábærlega svo ég er voða hamingjusöm með það :D
Að öðru leyti er allt gott að frétta hjá okkur, við erum bara í jólaundirbúningi kaupa jólagjafir skrifa jólakort þ.e. ég er búin að skrifa þrjú og þarf að pilla mér að klára skammtinn og baka auðvitað. Um daginn hringdi mágkona mín í mig og bað mig að passa fyrir sig, en hún hafði lofað vinkonu sinni að passa fyrir hana en á síðustu stundu gat hún það ekki og þurfti að fara til læknis. Vala hoppaði inn og passaði börnin hennar tvö og aukabarnið, nema ekki nóg með það heldur passaði ég að því er virðist tvo fullorðna líka, stjúppabba mannsins hennar og unglingssystir mannsins hennar. Hvers vegna ég var þarna hef ég ekki hugmynd um.