Mánudagur, 23. október 2006
Gleymdi einu
Ég gleymdi einu, plantan er ennþá lifandi, hún lítur ekki einusinni út fyrir að vera á leiðinni að deyja. Ég held að lykillinn er að drekkja henni í vatni annan hvern dag!
Annars er Jeff ennþá að hlægja að mér síðan í gær, en ég fékk símtal snemma um morguninn og ég er að tala um fyrir kl 9 snemma, og þeir sem þekkja mig vita að það er ekki mikið líf hjá mér fyrir hádegi en allavega þá skv hans sögn þá sofnaði ég þrisvar í miðju orði þegar hann var að reyna að fá mig til að svara símanum, ég man ekki baun í bala eftir þessu fyrr en ég vaknaði við hann skellihlægjandi yfir mér otandi símanum að mér.
Sunnudagur, 22. október 2006
Og enn meira af góðum fréttum
Við fengum staðfestingu frá innflytjendaeftirlitinu í dag að þeir hefðu fengið umsóknina okkar sem er mjög fljótt en lögfræðingurinn sagði okkur að í dag gæti það tekið allt að 2-4 vikur að fá staðfestingu svo við erum hamingjusöm með það!!
Mamma var svo rosalega góð að gefa mér heilan helling af peningum til að versla mér föt, svo ég verslaði mér föt, ég er ekki búin að eyða öllu ennþá, en ég er búin að kaupa mér rosa fína peysu fyrir veturinn, fallega rauð síð rúllukragapeysa og þrjá langerma haustboli en þótt það sé búið að snjóa hérna þrisvar þá er samt oft of heitt til að vera í peysu og of kalt til að vera í stuttermabol. Ég keypti líka bol á Jeff og hann fær líka buxur en því miður passaði bolurinn ekki svo ég þarf að skila honum, einnig keypti ég mér þrenna eyrnalokka rosa sæta, eitt par mjög klassískir demantar (ekki ekta), og tvenna síða lafandi hringi mjög sætir.
Annars erum við Jeff að spá hvort við eigum að stækka við okkur þegar leigusamningurinn rennur út núna í byrjun desember, hvort við eigum að fara í þriggja herbergja, en þegar ég er komin með vinnu þá auðvitað viljum við fara að fá okkur almennileg húsgögn og með allt sem ég hef í huga að kaupa, þá höfum við ekki pláss fyrir það hehe. Reyndar erum við ansi sammála að eitt af því fyrsta sem við kaupum er stærra rúm en rúmið sem við erum með núna er frekar lítið og of stutt fyrir Jeff, og ef við fáum nýtt rúm þá er allt plássið farið úr svefnherberginu. En annars kemur þetta allt í ljós, við eigum eftir að athuga hvað það myndi kosta okkur aukalega á mánuði.
Laugardagur, 14. október 2006
Góðar fréttir
Ég er loksins með góðar fréttir, ég var að fá staðfestingu frá lögfræðingnum í pósti að það er búið að sækja um vísa fyrir okkur. Við fengum afritin sem við þurftum að fylla út og þau eru það þykk að það er hægt að skella þessu í heila bók :p Loksins er eitthvað farið að ganga hjá okkur í vísamálunum!!
Að öðru leyti er allt gott að frétta úr ameríkunni, Jeff er í strákaferð í Vegas svo ég verð í skeggfríu umhverfi í 3 daga! Ég auðitað byrjaði á því að þrífa íbúðina frá toppi til táar og fara svo út í verslunarferð og er búin að kaupa mynd á vegginn, smá haust/hrekkjavökuskraut, svokölluð veggblóm en maður stingur þeim í samband í innstungu og þau gefa af sér góða lykt í íbúðina og að lokum kjúkling!! hehe ekkert smá spennandi líf sem ég lifi huhh!! En allavega þá verða engar skeggleyfar í baðherberginu í 3 heila daga!
P.s. plantan mín er enn lifandi!
Vinir og fjölskylda | Breytt 15.10.2006 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 11. október 2006
Blóm
Jeff var svo sætur í sér þegar hann kom heim í dag að hann gaf mér plöntu.....aftur. Hann líka rekst aldrei á garðinn þar sem hann er lægstur vitandi það að ég drep flest lifandi blóm (síðast með rúðuúða) en hann gaf mér paprikublóm!! Það er rosalega fallegt, er nánast eins og á myndinni hérna, en ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að hugsa um svona apparat, svo ef einhver veit hvað ég á að gera, þá endilega skellið því í athugasemdir.
Ef eitthvað er, held ég að honum finnist það bara fyndið að ég geti ekki hugsað um blóm, því þegar hann gaf mér þetta sagði hann að rétt áður en ég dræpi þetta blóm gæti ég allavega eldað eitthvað úr því! heheh
Miðvikudagur, 4. október 2006
Vesen og vitleysa
Um daginn þá ákvað ég að senda lögfræðingnum okkar tölvupóst þar sem mér fannst frekar furðulegt að við hefðum ekki heyrt neitt síðan við fréttum að það væri búið að sækja um vísað fyrir okkur. Ég fékk það svar til baka að hann hafði aldrei fengið pappírana og því væri ekkert búið að sækja um! Við urðum auðvitað nett pirruð þar sem við höfðum fengið upplýsingar frá aðstoðarmanneskju hans að það væri búið að sækja um og allt væri í góðum höndum. Við áttum sem betur fer afrit svo við þurftum ekki að bíða í 2 vikur eftir að fá það endursent og ákváðum að taka enga sjénsa í þetta sinnið og keyrðum með pappírana niður í miðbæ sem er um hálftíma akstur til að skila þeim inn. Þetta vísamál er að gera okkur geðveik en vonandi er þetta síðasta bakslagið sem við fáum, ég veit ég er farin að hljóma eins og gömul plata en maður verður að horfa á björtu hliðarna hehe
Að öðru leyti er allt gott af okkur að frétta, Jeff fékk magaflensu í síðustu viku og kastaði upp í tölvuherberginu í vinnunni hehe, sem betur fer hitti hann þó í ruslafötuna svo það var ekki allt út um allt. Síðan á föstudeginum hélt ég að hann hefði smitað mig þar sem mér fór að líða ansi undarlega, en þá kom í ljós að Jeff leið heldur ekkert allt of vel í maganum svo það hefur verið eitthvað að pizzunni sem ég bakaði, annað hvort var pizzusósan ekki í lagi eða osturinn, en það er það eina sem við erum með sameiginlegt í pizzunum okkar. Allavega þá varð það ekkert alvarlegt bara smá óþægindi í um 2 klst og svo var það búið.
Líf hefur það gott, henni og Jeff semur mjög vel en kl 9 á kvöldin þegar Jeff þarf að fara að sofa þar sem hann þarf að vakna fyrir allar aldir til að fara í vinnu þá leggst hún upp í við hliðiná honum og þau hrjóta þar saman. Hún er búin að vera voðalega dugleg að læra nýjar reglur hérna, eins og hún má bara klóra í klóruna sína, ekki teppið, sófan eða neina stóla. Hún má ekki fara upp á eldhúsborð þótt hún óhlýðnast því af og til þegar hún heldur að hún sé að fá rækjur eða skinku, en að öðru leiti þá heldur hún sig mest bara á barstólnum. Og hún er enn að væla yfir spegilmyndinni sinni í loftljósinu fyrir ofan borðstofuborðið en hana langar rosalega mikið þar upp til að skoða hvaða skrítna kisa leynist þar :) (já ég er gæludýrafrík ég get talað endalaust um hana).
Það sem er á planinu hjá okkur er að Jeff er að fara í strákaferð til Las Vegas í þessum mánuði en vinur hans býr þar og er að vinna að einhverjum raunveruleikaþætti sem á eftir að koma út og er að velta milljónum við það, og hefur því allskonar góð sambönd og fékk rosafínan díl fyrir þá á gistingu. Það verður rosa gaman fyrir hann enda hefur hann varla hitt vini sína í allt of langan tíma. En við þetta fékk ég þá hugmynd að næsta haust eftir ár eða svo (þegar þið allar eruð hættar að punga út börnum) þá gætum við stelpurnar hitt í New York yfir helgi eða svo :) Það gæti orðið rosa gaman :)
Það er ýmislegt í gangi hérna í USA það sem er hæst á baugi eru skotárásirnar í skólunum en landið í heild er í sjokki yfir því, það er bara vonandi að það eru ekki fleiri sem finnst það góð hugmynd að framkvæma slíkan verknað en oft þegar ein beljan pissar þá pissa þær allar þegar svona kemur upp. En í fyrri árásinni sem gerðist hérna í Colorado þá á vinnufélagi Jeffs son sem gengur í þennan skóla, ekkert smá skelfilegt en þetta gerðist í pínulitlum fjallabæ í um klst fjarlægð frá Denver. Það eru sögur um að maðurinn sem framdi verknaðinn hafi fundið vefsíðu stúlkunnar sem hann skaut á myspace.com :(
Sem betur fer gerist svona ekki oft, en eins mikið og ég vil ekki enda bloggfærsluna á jafn drungalegum hlut og þessum þá eiginlega nenni ég ekki að skrifa meira, þetta er orðið allt of langt það nennir sennilega enginn að lesa þetta allt hehe!
Kveðja,
Vala!
Þriðjudagur, 26. september 2006
Elgar = Dádýr
Skv Dr. Nínu þá eru elgarnir mínir sem ég tók myndir af ekki elgar heldur Dádýr heheh!! Takk fyrir leiðréttinguna!!
Þriðjudagur, 26. september 2006
Fjöllin og elgir
Planið síðustu helgina sem pabbi var hérna var að leigja bíl og keyra upp í fjöllin í þjóðgarð sem er þar. En þá gerði veðrið sér lítið fyrir og setti á storm svo það var send út viðvörun. Það byrjaði víst að snjóa og það var um 80kmh rok!! Þannig við ákváðum að hanga heima í staðinn. Hinsvegar á sunnudeginum þá datt þetta allt niður, snjórinn bráðnaði og hitinn fór upp í tæplega 20 stig! Svo við drifum okkur á bílaleigu fengum rosa fínan bíl og brunuðum upp í fjöllin! Þar er bær sem heitir Estes Park hann er rétt áður en þú kemur að þjóðgarðinum sem heitir Rocky Mountain National Park. Þar fékk rithöfundurinn Stephen King mikið af sínum innblástri en einmitt þarna er hótelið sem hann skrifaði um í Shining! Pabbi tók fína mynd af því og er það á myndasíðunni!
Það var hreint og beint magnað að fara upp í fjöllin, rétt áður en maður kemur inn í bæinn er skilti þar sem varað er við að það gæti verið dýralíf á öllum götum hér eftir. Það reyndist rétt því það var hjörð af elgum sem var að leggja sig undir tré fyrir framan húsin við aðalgötuna í bænum. Þeim var nokk sama þótt það var hjörð af fólki fyrir framan nefið á þeim að taka myndir og dást að þeim. Síðan keyrðum við nokkur skref í viðbót og þar var önnur hjörð af elgum sem hafði komið sér vel fyrir á golfvellinum hehe. Það hlýtur að vera gaman að búa þarna og fá allskonar dýr í garðinn sinn, en það eru fjallaljón, birnir og fleiri hættuleg dýr þarna!
Náttúrufegurðin er rosalega þarna uppfrá, útsýnið alveg hreint magnað en við búum við stærsta fjallgarð Norður Ameríku og í raun vorum við rétt upp í fjallgarðinum sem við íslendingar köllum nú eiginlega fjöll, enda fjallgarðurinn hærri en hæsti tindur íslands :) Við vorum hreinlega dáleidd af fegurðinni þarna og ætla ég bara að láta myndirnar ráða ferðinni, það er nýtt albúm til sem heitir Rocky Mountains.
Pabbi fór svo heim í gær á mánudeginum og gekk ferðin eftir því sem ég veit best vel, ég fékk allavega tölvupóst frá honum þar sem hann sagðist hafa komist heim heill á höldnu!
Ég bætti nokkrum myndum við líka undir Pabbi í Denver albúmið
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. september 2006
Blómagarðurinn í Denver
Sunnudagur, 17. september 2006
Pabbi búinn að fá steik
Það er búið að vera nóg að gera hjá okkur feðginunum, við erum búin að versla heilan helling af myndavéladóti, föt á kallinn og hann gaf okkur þennan rosalega fína prentara. Síðan fórum við í þjóðgarðinn sem er rétt hjá heima hjá mér og undum okkur þar heilan dag, í fleiri verslanir og ég veit ekki hvað. Í gær föstudag fórum við svo með kallinn út að borða á Outback Steakhouse þar sem hægt er að fá rosalega góðar steikur. Þar splæstum við á hann ekta amerískri steik og líkaði honum það rosalega vel. Í dag fórum við svo niður í miðbæ, við byrjuðum á því að fara í brugggerð sem er veitingarhús en þeir búa til sinn eigin bjór, þar er hægt að fá prufur af þeirra helstu bjórum sem þeir eru með þá stundina sem ég pantaði fyrir kallinn og svo fékk hann buffalo salat (ekki buffalo vængi heldur alvöru buffalo kjöt). Síðan eyddum við restinni af deginum að skoða miðbæinn og verslanirnar þar.
Ég er búin að bæta við nokkrum myndum við í albúmið hér til hliðar en ég bætti þeim undir Pabbi í Denver albúminu
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 14. september 2006
Dagur 2
Ég fór með pabba í myndavélabúð í dag, en þeir sem þekkja hann vita að hann er mikill myndavélaáhugamaður. Þar keypti hann sér flass, linsu, tösku og fleira og eins og það væri ekki nóg þá gaf hann okkur hjónakornunum rosalega fínan prentara!!
Kisan mín hefur það gott, hún er búin að taka ástfóstri við gerfiblómi sem ég á og finnst afskaplega gaman að leika sér af því og henda því niður mér til mikilla mæðu hehe, þess á milli vill hún láta klappa sér og klóra.
Á morgun er planið að dútla sér bara og finna góða staði til að taka myndir.