T-bone steik!

Í dag grilluðum við okkar fyrstu T-bone steikur!! Þær eru vanalega mjög dýrar en í dag voru þær á útsölu svo daman var ekki lengi að skella sér á tvær!! (Þessi saga var bara sögð til að gera pabba abbó).

Annars er ekkert sérstakt að frétta af okkur, við erum að fara að undirbúa flutninginn eftir tvær vikur og ég verð ekkert smá fegin þegar það er búið, enda veit ég fátt leiðinlegra en að flytja. Vinnan gengur mjög vel, ég er dugleg að leigja út íbúðir en ég fæ extra pening fyrir hverja íbúð sem ég sel.

Veðrið er að verða betra og betra með hverjum deginum, hitinn fór upp í um 30°C um daginn, svo í hvert skiptið sem ég þurfti að fara út þá nánast dó ég úr hita!

Svo fer að styttast í að pabbi komi í heimsókn en hann kemur um miðjan júlí og ekkert nema frábært, en annars hef ég ekkert annað að tala um í bili svo ég bara kveð ykkur í bili! 


Í fréttum er þetta helst...

Nákvæmlega ekki neitt. Okkar líf gengur sinn vanagang, við vinnum, grillum, sofum og hlökkum til að flytja í nýju íbúðina í nýja rúmið. Sem stendur þá skipti ég um vakt við samstarfsmann minn svo ég tek 7 daga törn á móti hans 7 daga törn svo hann gæti keppt í undankeppninni í Póker til að komast á meistaramótið. Ég á eftir að vinna núna mánudag, þriðjudag og miðvikudag og svo er ég komin aftur í frí. Akkúrat núna er ég að hafa mig til í vinnuna, en ég hef 35 mín eftir og á eftir að þurrka hárið, mála mig og ákveða í hvaða fötum ég vill fara, og já má ekki gleyma undirstöðu dagsins, morgunhafragrautinn :) 


Formlega komin með vinnu!!

Í dag tók yfirmaður minn mig á tal og réð mig formlega. Ég bjóst ekki við að verða ráðin formlega fyrr en í byrjun júlí, en þá rennur samningurinn minn út við ráðningaskrifstofuna, hún ákvað s.s. að kaupa samninginn út! Það kostar meira fyrir fyrirtækið en hún vildi frekar að ég ynni fyrir þau heldur en ég færi að hlaupa eitthvert annað. Þannig við erum á grænni grein.

Pabbi kemur hingað svo í júlí í 2 vikna heimsókn aftur sem er frábært, alltaf gaman að fá gesti, og ég tala ekki um að þá verðum við með meira pláss!

Annars er ekkert annað í fréttum, það er allt við það sama hérna, við bara vinnu, grillum og sofum :)

Kveðja úr Ameríkunni!! 


Nýtt rúm!

Þökk sé pabba þá erum við stoltir eigendur nýs rúms!! Við fáum það afhent þegar við flytjum í lok júní þar sem við ætlum ekki að henda rúminu sem við eigum en það fer í gestaherbergið. Við keyptum lengsta rúm sem við fundum sem heitir Californian King, það er svipað á breidd og Queen size en lengra þar sem Jeffinn minn rétt svo passaði í Queen size ef hann var með hausinn upp að höfuðborðinu hehe svo það verður bara rúm inn í svefnherberginu og ekkert annað þar sem það kemst ekkert annað fyrir hehe.

Annars er allt gott að frétta af okkur, ég á að fara að pissa í bolla í dag fyrir fyrirtækið sem ég er að fara að vinna hjá sem er síðasti linkurinn í ráðningaferlinu, passa upp á að ég sé ekki í dópi og vitleysu. Við erum búin að velja íbúðina sem við ætlum að flytja í sem er enn og aftur á þriðju hæð, en við gátum valið um fyrstu, aðra og þriðju hæð, við vorum að spá í fyrstu en þá erum við með fólk fyrir ofan okkur að trampa á okkur og með þriðju hæðinni fáum við hátt til lofts sem gerir íbúðina fallegri svo við höldum okkur við stigana.

Jeff kom heim úr vinnunni í dag með lítið grill handa mér!! Jeiiii þetta er svona ferðagasgrill sem kostar 24 dollara og dugar okkur fínt þangað til við fáum okkur alvörugrill. Svo í kvöld verður grillmatur....og á morgunn, og hinn og hinn og hinn.....og hinn.. hehe.

Annars þá kveð ég ykkur ég þarf að ákveða hvað ég ætla að hafa í matinn á morgunn en Nicki og Bo eru að koma í heimsókn!


Alltaf að vinna

Það lítur alltaf betur og betur út fyrir að ég sé komin með fasta vinnu. Ég talaði við yfirmann minn í dag og hún sagði að hún er að bíða eftir niðurstöðum frá hvort kennitalan mín (bandaríska) sé á glæpaskrá og svo þarf ég sennilega að pissa í bolla til að sýna framá að ég sé ekki á einhverjum lyfjum :) Ef það kemur vel út er ég komin með vinnu....það þarf ekki að spurja að því að ég sé með einhverjar áhyggjur af því svo þetta er bara frábært. Við erum því formlega að fara að flytja í lok júní í 3 herbergja 84fm íbúð með tveimur baðherbergjum, svo ef einhver kemur í heimsókn fær hann sitt eigið herbergi og baðherbergi :) Pabbi ákvað líka að vera svo yndislegur að gefa okkur nýtt rúm svo við eigum meira að segja rúm fyrir ykkur til að sofa í! Það er því bara hamingja á þessum bæ :)

Ekki nóg með það að vera komin með vinnu og að vera að flytja þá fæ ég 50% afslátt af nýju íbúðinni ásamt fleiri fríðindum eins og frítt bílastæði o.s.frv. þannig við komum til með að borga á milli 30-35 þús í leigu. Einnig spörum við að þurfa ekki að kaupa annan bíl, í staðinn getum við bara uppfært gömlu drusluna okkar. Þannig lífið er bjart í dag og með þessu áframhaldi eru sterkar líkur á að daman komi tl Íslands um jólin (fer mest eftir útlendingaeftirlitinu samt).

Annars bið ég að heilsa úr ameríkunni!! 


Bílpróf í annað sinn...

Í gær fór ég í hluta af bílprófinu sem ég þarf að taka fyrir skírteinið hérna í Denver en ég þarf að taka skriflegt, verklegt og augnpróf (hvort ég sjái nógu vel til að keyra). Í gær fór ég í skriflega prófið og daman rúllaði því upp en var tæp á sjónprófinu hehe, giskaði helminginn og þurfti verulega að píra augun í hinn svo það er nokkuð ljóst að það er kominn tími á að fá sér ný gleraugu. Síðan tek ég verklega prófið í næstu viku og verð þá vonandi komin með bílpróf :)

Annars verður þetta ekki lengra í dag þar sem ég þarf að pilla mér í vinnuna!


Samsæri Austur-Evrópu

Svo virðist vera að Vestur-Evrópubúar sitja núna með sárt ennið eftir að komast ekkert áfram í evróvision eftir að hafa dominerað keppninni í sennilega 50 ár :) Því er farið að tala um samsæri að löndin hafi gert samkomulag um að kjósa hvort annað og skipta stigum á milli sín á milli ára! Mér er þá spurn, gerðum við svoleiðis samkomulag við hin skandinavíulöndin þar sem jahh...við fáum alltaf stig frá Noregi og Danmörku og gefum þeim vanalega full hús stiga á móti, og svo framvegis með önnur nágrannalönd. Nú að sjálfsögðu þá getur ekki staðreyndin bara verið sú að Austur-Evrópa er hreinlega að koma með betri lög inn í keppnina meira í þjóðlega gírnum á meðan við í Vestrinu erum að rembast við að vera glimmer popparar :)

Annars er allt gott að frétta af mér, ég talaði við yfirmann minn í vinnunni og hún sagði að það tekur mig um 60 daga að vinna af mér samninginn við ráðningaskrifstofuna svo ég væri pottþétt með vinnu þá daga og eftir það er vel hugsanlegt að ég verði fastráðin. Sem þýðir að ég er væntanlega komin með vinnu nema ég fari að sýna einhver rosalega óábyrgð. Við Jeff erum því að glíma við eigum við að flytja þangað þar sem leigusamningurinn hérna rennur út í lok júní, eða eigum við að vera hérna aðeins áfram ef ske kynni að ég fengi ekki vinnuna. Ég hugsa samt að við endum við að flytja þar sem þetta er mun betri íbúðir og hverfi og ég tala ekki um að fara úr 2 herbergja í 3 herbergja og fá tvö baðherbergi :D Munar um allt!!

Á mánudag kom nokkuð sterkur stormur hingað til Denver, ég fór til Nicki og Bo til að taka fjölskyldumyndir af þeim sem heppnaðist nokkuð vel, síðan þegar við vorum að borða kvöldmat þá heyrum við þessa rosa sprengingu en elding hafði lostið niður í húsið hinum megin við götuna! Nágrannarnir komu yfir til okkar á meðan slökkviliðið kom en sem betur fer var enginn eldur, eldinginn hafði hitt hliðina á húsinu og það urðu smá skemmdir þar ásamt því að eyðileggja tvö sjónvörp í húsinu. Ég ákvað því að vera ekkert að fara heim fyrr en að veðrinu slotaði hehe. En ég komst svo heim um 11 um kvöldið þar sem stormurinn fór frekar hratt yfir. 


mbl.is Breskur þingmaður krefst þess að Evróvisjón-kosningunni verði breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjart framundan

Ég náði tali af yfirmanni mínum í dag en þau eru mjög ánægð með mig og vilja fá mig áfram þó þau séu ekki búin að fastráða mig. Eins og staðan er í dag þá er ég ráðin af ráðningaskrifstofu og fyrirtækið ræður ráðningaskrifstofuna til að senda inn tímabundinn starfsmann (mig). Þeir báðu ráðningaskrifstofuna að senda mig áfram til þeirra svo ég talaði við yfirmanninn og lét hana vita að ég hafði áhuga á fullu starfi frá þeim. Hún var mjög jákvæð á það og bað mig að koma með ferilskrá á mánudaginn sem ég og auðvitað geri. Ef svo heppilega vill til að ég fái fasta vinnu þarna þá komum við líka til með að flytja þangað. Fín staðsetning, 50% afsláttur af leigu svo við myndum leigja okkur 3 herbergja íbúð með tveimur baðherbergjum svo ef einhver vill koma í heimsókn næsta haust fengu þau sitt eigið herbergi og bað :) við myndum spara í bílakostnað þar sem við þyrftum ekki að kaupa okkur annan bíl heldur gætum við frekar sett litla trackerinn okkar upp í betri bíl næsta vetur svo eins og ég segi hlutirnir eru farnir að líta upp á við hjá okkur :) Ef þetta gengur eftir myndum við flytja í lok júní.

Annað það sem er í fréttum, litla systir Jeffs er að flytja á morgunn svo Jeff þarf að hjálpa þeim að flytja á meðan ég er að vinna hehe, en þau fá að hjálpa okkur eftir 1,5 mánuð ef allt gengur vel svo þetta kemur út á eitt. Svo er Nicki og Bo hugsanlega að fara að ættleiða dreng í svokallaðari persónulegri ættleiðingu. Það sem gerðist er að vinkona ættingja þeirra í Chicago varð ólétt og ákvað að gefa barnið. Ættingjarnir hringdu í Nicki þar sem þau vissu að þau voru búin að reyna að eignast barn núna í 6 ár og ekkert gengið. Nicki og Bo eru því búin að standa á haus að reyna að koma ættleiðingunni í gegn en þau þurftu að koma upp með c.a. 700.þúsund á nóinu ásamt því að fara í gegnum alla pappíravinnu og annað sem tengist ættleiðingu, en stelpan er núna komin 7-8 mánuði á leið svo hver veit nema þau verða orðin foreldrar í jún/júlí :) Ég er ekkert smá glöð fyrir þeirra hönd þar sem þau eru svo tilbúin að verða foreldrar og eiga það svo innilega skilið.

Svo er er allt í gúddí, veðrið undanfarið er búið að vera í kringum 20-23°C svo ég er búin að vera að deyja úr hita og það á bara eftir að versna hehe. En allavega, vonandi verður Valan komin með fasta vinnu bráðlega svo ég geti sagt upp leigunni hérna og farið að spara massívan pening með að flytja :D

Kveðja úr sólinni!! 


Strætó Smætó

Það gekk vel að taka strætó í morgun, ekkert mál fyrir jón pál skoh. Dagurinn gekk vel fyrir sig og ég fékk að vita að fyrirtækið er að leita að fastastarfsmönnum, ég hef reyndar ekki hitt yfirmennina svo enn sem komið er eru það ennþá á slúðurstiginu :) Ég vona bara það besta og geri mitt besta.

Vinnudagurinn var frá 9-18 og Jeff ætlaði auðvitað að sækja mig að vinnu lokinni. Klukkan slær sex og ég þarf að fara út úr skrifstofunni þar sem ég hef ekki lyklavöld allavega ennþá :) tíminn líður og enginn Jeff og ég ekki með gsm og enginn sími nálægt, eftir að ég hafði beðið í 40 mínútur þá var mér nóg boðið og þrammaði af stað auðvitað að drepast úr áhyggjum þar sem þetta er mjög ólíkt Jeff sem er alltaf mjög stundvís. Eftir um 3 km göngu á háhæluðum skóm fann ég loksins Burger King og náði að hringja þaðan heim, þá var Jeff nýkominn heim úr sinni svaðilför en eitthvað gerðist annað hvort gaf ég honum rangar leiðbeiningar eða hann tók vitlausar leiðbeiningar til að fara eftir svo hann fór í akkúrat öfuga átt en hann átti að fara, þar lenti hann í umferðateppu vegna tveggja umferðaslysa með stuttu millibili en það tók hann um 2 tíma að komast aftur heim hehe. En allavega þá veit hann á morgunn hvar hann á að sækja mig og vonandi kemur ekkert fleira uppá :)


3 dagar í viðbót

Ég fékk símtal í dag og var beðin að mæta aftur á sama stað miðvikudag til föstudag!! Vonandi verður full vinna úr þessu!! Það kemur í ljós seinna :) En í þetta skiptið þarf ég að taka strætó í vinnuna, ég hef aldrei tekið strætó síðan ég flutti hingað svo þetta verður eitthvað gáfulegt, og það versta er að ég er ekki með gsm síma heldur ef eitthvað fer úrskeiðis :P

Ég læt heyra í mér á morgunn með hvernig gengur :) 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband