Vinnuleit

Þá fékk ég svar frá skólaumdæminu en þau ákváðu að ráða einhvern annan. Ég fékk semsagt ekki vinnuna. Það sem tekur þá við hjá mér er að í dag fer ég á ráðningaskrifstofu og tala við þau þar ásamt því að tala við aðra ráðningaskrifstofu í leiguíbúðabransanum, svo ég hef enn nokkur spil upp í erminni.

Seinustu helgi þá var afmælisveisla fyrir Avery, hún varð eins árs á St Patreksdag, nema þar sem mamma hennar og amma geta ekki með nokkru móti framkvæmt nein plön þá fengum við símtal seinnipartinn á laugardag þar sem við vorum boðuð í afmælisveislu daginn eftir. En við höfðum þá planað að fara í bíó og reyna að sjá restina af 300 á sunnudeginum, en í staðinn þurftum við að fara í barnaafmæli og stoppa á leiðinni til að kaupa afmælisgjöf :P Það þarf ekki að segja að við vorum ekki í góðu skapi á sunnudeginum.

Að öðru leiti höfum við það gott, það er búið að vera rosalega gott veður hérna undanfarið en núna er aðeins farið að halla í vindinn, það er skýjað og rok með von um snjókomu í kvöld fyrir okkur. En þetta er ekki óvænt hérna getur snjóað vel fram í apríl, sólardagarnir eru bara fleiri.

Fyrir ykkur sem ég talaði við á msn um daginn þá er ég ekki ennþá búin að ákveða að kaupa litla sæta fuglahúsið sem ég sá, það er hinsvegar aldrei að vita að ég geri það í dag en ég þarf að fara í nágrennið þar sem þeir selja það eftir viðtalið við ráðningaskrifstofuna í dag, sem ég þarf að fara að hafa mig til fyrir. Við heyrumst því seinna! 


Viðtal nr 2

Þá er viðtal númer 2 búið, vinnuviðtalið! Það tóku heilar fjórar konur við mér með nokkra blaðsíðna lista af spurningum handa mér. Mér leið ansi sérstakri :) Viðtalið sjálft gekk ágætlega, ég stamaði ekki of mikið á enskunni og náði að koma flestu út úr mér á réttan hátt. Ég svaraði öllum spurningunum þeirra sama hversu asnalegar þær voru en hvað ég svaraði man ég ekki þar sem ég bullaði nánast úr mér tunguna. Enda lítið annað hægt þegar maður fær spurningu eins og; "Hvernig ætlaru að betrumbæta starfsmannadeildina ef þú yrðir ráðin" Uhmm....þar sem ég hef ekki hugmynd um hvernig deildin virkar þar sem ég vinn ekki þar ennþá allavega! En ég bullaði eitthvað um að betrumbæta vefsíðuna þeirra sem er mjög óregluleg og erfitt að finna nokkurn skapaðan hlut á henni. Svo var próf í lokin, ég átti að framkvæma einföld reiknisdæmi þar sem þau virðast reikna launin í höndunum....hehe (ég skynja ansi mörg mistök) og setja upp töflu í Excel og síðan sennilega það sem var verst fyrir mig, að skrifa svar við tölvupósti þar sem sett var upp ákveðinn atburður sem ég átti að svara fyrir. Að öðru leiti gekk ágætlega, ég allavega gerði mitt besta. Nú er bara að bíða og vona, ég legg þetta í Guðs hendur.

Helgin var annars fín, veðrið er búið að vera frábært, hitinn fer upp í 20°C og Valan náði meira að segja að brenna á laugardaginn eftir að hafa staðið úti í korter....svo núna er ég með smá lit, rauð, en hey, rauður er líka litur!! hehe

Ég er annars farin að hlakka mjög til að fá vinnu, aðallega að fá útborgað svo ég geti farið og verslað almennilega, innkaupalistinn verður alltaf lengri með hverjum deginum en ég var voða góð og spurði Jeff hvað hann væri búinn að plana að kaupa þegar við fengum meiri pening milli handanna, hann sagðist ekki vanta neitt mér til mikilla léttis en það táknar að ég get verslað einn þá meira!! hehe alltaf góð ástæða fyrir að fara að vinna :)


Viðtalið búið

Við vorum að koma heim frá viðtalinu við útlendingaeftirlitið. Það var einstaklega furðulegt. Við vorum mætt frekar snemma en við vildum frekar vera snemma í því en seint þar sem ekki er tekið vel í það þar á bæ, svo eftir smá bið komust við að. Kona leiddi okkur inn á skrifstofu og lét okkur sverja eið að við segðum sannleikann og ekkert nema sannleikan svo hjálpi okkur Guð. Síðan staðfesti hún það allavega 5 sinnum við okkur að lögfræðingurinn okkar yrði ekki viðstaddur í viðtalin bara svona til að vera viss. Síðan settumst við niður, og hún fór að spurja mig spjörunum út. Spurningarnar voru á þessa leið: 

Hefuru verið handtekin, nei

Hefuru komið inn í landið og verið hent út aftur, nei

Hefuru tekið þátt í hryðjuverkaárásum, nei

Ertu að plana að taka þátt í hryðjuverkaárásum, nei

O.s.frv. Ég bara verð að spyrja, hver svarar já við þessum spurningum!

Annars þá tók viðtalið um 5 mínútur eða svo, hún hafði engan áhuga á að skoða allar myndirnar sem ég kom með og vildi fá fleiri pappíra sem sanna að við eigum sömu hagi, en við höfðum bara eina slíka sem var leigusamningurinn. Hún bað okkur því um að senda inn fleiri þar sem ég er svo nýkomin með kennitöluna að það hefur ekki verið hægt að setja nafnið mitt á neitt sem skiptir máli og síðan henti hún okkur út, búið næsti!

Þegar við vorum komin út spurðum við okkur bæði, hvað eiginlega gerðist þarna inni og hvað kom út úr því...við eiginlega vorum ekki viss nema við höldum að við séum á einhverskonar fresti þangað til hún fái fleiri pappíra. Við fórum því á leiðinni heim í bankann og settum nafnið mitt á bankareikninginn sem er allavega fyrsta skrefið, síðan er að koma að skattaskilum hérna og Jeff setur nafnið mitt þar inn á, svo þarf ég að safna öllum pósti og bréfum sem eru stíluð á okkur bæði o.s.frv. Þannig ef þið viljið senda mér póstkort, stílið á Vala and Jeff Vieregg :)

Annars er helgin framundan, St. Patreksdagurinn er á laugardaginn en við erum nú ekki með nein plön fyrir hann enn sem komið er, og við erum að spá að gera tilraun númer 2 til að sjá 300 án þess að bíóið missi rafmagn.

Svo næsta þriðjudag er atvinnuviðtalið mitt og þangað til þá verð ég ekkert á msn. Eitt sem ég hef komist að er að enskan mín tekur 2 skref afturábak í nokkra daga þegar ég hef talað við fólk á íslensku, sérstaklega þegar ég tala í síma eða á skype. Þannig slík samskipti verða spöruð þangað til eftirá svo ég stami ekki of mikið í viðtalinu :) 


Viðtal

Einmitt þegar ég var búin að afskrifa vinnuna sem ég sótti um hjá skólaumdæminu (þar sem Jeff vinnur) þá var hringt í dag og ég boðuð í viðtal í næstu viku!! SPENNÓ!!! Vonandi fæ ég vinnuna þar sem það myndi leysa svo mörg vandamál...jah ok eitt vandamál viðkomandi bíl hehe

Síðan á morgun er viðtal við innflytjendaeftirlitið. Ég þarf að fara á fætur um 4 leytið til að hafa mig til þar sem við þurfum að fara út rúmlega 6 um morguninn!! En vonandi gengur allt vel. Ég læt heyra í mér betur eftir viðtalið á morgunn. 


Hiti - bíó og útlendingaeftirlit

Það er 19°C hiti og ég er að steikjast úr hita. Ég er með alla glugga opna, viftuna beint á mig og mér er samt heitt. Það er rétt að koma vor, ég á eftir að deyja í sumar. Síðasta sumar fór ég varla út fyrir hússins dyr í júlí og ágúst, það var hreinlega of heitt fyrir litla Íslendinginn, í sumar neyðist ég sennilega að fara út ef ég fæ vinnu bráðum. Ég hef ekkert heyrt frá skólanum svo ég veit ekki hvort það komi nokkuð úr því. Ég fékk líka kennitöluna mína í pósti í morgun sem er mikið gleðiefni svo núna get ég skráð mig á bankareikninginn okkar, fengið mér ökuskírteini og fl. 

Seinasta sunnudag fórum við í bíó á myndina 300. Ekkert smá flott og kröftug mynd en þegar hún var rétt rúmlega hálfnuð þá fór rafmagnið af bíóinu!! AFTUR! Nema í þetta sinn var engin rigning, stormur eða neitt að veðrinu til að olla þessu. Við þurfum því að fara aftur, sitja undir fyrri helming myndarinnar sem við erum búin að sjá. Ég var frekar vonsvikin þar sem ég var búin að bíða lengi eftir að þessi mynd kæmi út, en þeir sem hafa áhuga á ljósmyndun þá er eins og þeir hafa tekið ákveðin ljósmyndastíl og komið honum yfir í bíómyndaform ásamt auðvitað brellum og öðru sem er hreinlega meistaralega vel tekið! Ég fékk gæsabólur á nokkrum stöðum í myndinni hún var svo flott...allavegana þá er planið að fara í bíó seinna í mánuðinum þar sem frímiðinn sem við fengum gildir bara í 30 daga.

Á fimmtudaginn er svo viðtalið við útlendingaeftirlitið, við verðum með tvö albúm þar, annað giftingaralbúmið og hitt verður hitt og þetta albúm með myndum frá því Jeff var á Íslandi, ýmsum atburðum hér, og svo aðra pappíra eins og leigusamning þar sem nafnið okkar beggja er á o.s.frv. Eftir það verður svo farið á fullt í atvinnuleitinni!

Kveðja úr sólinni!


Spennó

Ég sótti um vinnu í skólaumdæminu sem Jeff vinnur í um daginn í sömu deild og Nicki vinnur í, starfsmannadeildinni. Í vinnulýsingunni þá var ásamt dæmigerðum störfum beðið um einhvern með góða tölvureynslu og þá sérstaklega í bloggum. Ekki málið skoh, ég var ekki lengi að sækja um (ferlið tók reyndar upp undir klukkutíma) og í morgun fékk ég tölvupóst frá þeim þar sem þau báðu mig um að útlista nákvæmar tölvureynslu mína. Eins og hversu oft ég nota forritið, hvað ég nota það í og hversu klár ég er í því. Ég vippaði því saman og sendi til baka og bíð núna spennt eftir hvort að dugi til að koma mér í viðtal.

Það væri frábært að fá vinnu þarna þar sem við gætum deilt bílnum en við myndum vinna í sömu byggingu þótt ekki í sömu deild. En með þessu fyrirkomulagi gætum við beðið með að kaupa bíl og frekar safnað upp einum eða tveim mánuðum lengur (eða þangað til ég nenni ekki lengur að vakna kl 5 á morgnana til að keyra Jeff í vinnuna). Launin eru ágæt, þetta er ríkisvinna svo þau eru ekkert rosalega spes, en góður staður til að fá reynslu og svo ég tala ekki um frí á hátíðardögum!! Allavega vona ég að það komi eitthvað jákvætt út úr þessu og bráðum verði ég komin með vinnu.

Í næstu viku er svo viðtalið við útlendingaeftirlitið og í gær var smá símafundur með lögfræðingnum okkar til að undirbúa okkur undir það sem er að koma. Við erum á fullu að setja saman myndir og fleira sem sannar að við séum í alvörunni hjón svo ef einhver ykkar eiga myndir af okkur og þá helst hópmyndir eða af okkur að gera eitthvað á netinu og vilja senda þær til mín, látið mig vita eða sendið til mín á valabj@comcast.net 


Vinnuviðtal

Ég var alveg búin að gleyma því að ekki allir vita hvernig fór með atvinnuviðtalið hjá mér hehe. En fyrr í vikunni sótti ég um vinnu og fékk svar strax til baka að koma í viðtal daginn eftir. Eitthvað fannst mér þetta skrítið en þegar maður er að reyna að komast inn í markaðsfræðina hérna þá eru ansi mörg fyrirtæki sem vilja hafa af þér pening en ekki öfugt :) Ég leitaði vel og lengi eftir hvort þetta fyrirtæki væri þannig ég fann ekkert slæmt á þá svo þótt mér fyndist ansi margt benda til að þeir væru einmitt fraud fyrirtæki þá ákvað ég samt að skella mér í viðtal, ég fengi í það minnsta æfingu í atvinnuviðtali. Síðan um kvöldið ákvað ég að leita aðeins aftur og þá fann ég eina skýrslu á þá og ég skoðaði heimasíðuna þeirra betur og fattaði að þeir eru meira að reyna að selja mér vinnu en að fá viðskiptavini hehe. Ég ákvað nú samt daginn eftir að skella mér því ég hafði líka hugsað mér að spyrja þau spjörunum út og var forvitin að heyra svörin hehe (þær spurningar sem ég hafði í huga voru ekkert sérstaklega vinalegar). Ég keyri af stað og er búin að keyra í c.a. 20 mín þegar ég fatta að ég tók vitlausa hraðbraut.....þegar ég loksins náði að koma mér til baka eftir að hafa villst í iðnaðarhverfi þá var ég orðin of sein í viðtalið svo ég slepti því á endanum hehe. En í staðinn uppgötvaði ég að það væri atvinnuráðstefna í gangi sama dag svo ég dreif mig þangað. Atvinnuráðstefna hérna er þegar ýmsir vinnustaðir koma saman setja upp bása og kynna þá atvinnumöguleika sem eru í boði og fyrirtækin sín. Þar var ég hvött að sækja um kennarastöðu í margiðlun í háskóla hérna heheh, sem auðvitað kom ekki til greina þar sem ferilskráin mín er kannski ekki alveg sannsögul um reynsluna mína og hef ekki haft neina æfingu á neinu forriti nema photoshop síðan ég kom út úr skólanum. Svo var reyndar fyrirtæki sem selur sjúkrahústæki sem hvatti mig til að sækja um seinna á árinu um margmiðlunardeildina þeirra en þeir búa til allt sitt útgáfuefni sjálfir. Svo það er á planinu :)  Þessi ráðstefna var frekar kúl og það er önnur svona ráðstefna held ég á mánudag, sem ég plana að fara á.

Annað sem er að frétta af mér er að ég náði á lögfræðingnum í sambandi við að fá kennitöluna mína hérna, og ég þarf víst að sækja sérstaklega um hana. Svo ég þarf að fara á mánudaginn og gera það, einnig eigum við símafund með lögfræðingnum á þriðjudaginn til að undirbúa okkur undir fundinn með útlendingaeftirlitinu sem er núna um miðjan mars. Svo er ég búin að ákveða að fara út í leiguíbúðabransann allavega til að byrja með svo ég ætla að byrja að sækja um þar líka. 

Að öðru leiti er allt gott að frétta, við höfum það bæði gott og erum hraust. Jeff er búinn að jafna sig eftir afmælið sitt svo allt er í góðum málum hjá okkur sem stendur. Eina sem mig vantar er vinnukona til að þrífa fyrir mig, en ég þarf víst að koma mér í það núna :P 


Ammili

Jeffinn minn átti afmæli á föstudaginn svo frúin á heimilinu vaknaði eldsnemma til að baka köku. Þeir sem þekkja mig vita að bakstur er ekki mín sterkasta hlið en haldiði ekki að kakan hafi bara ekki heppnast!! (Eins vel og við er að búast). Síðan á laugardaginn var haldið upp á afmælið, hann pantaði að fara í bíó og á bar/grill eftirá, að sjálfsögðu var honum veitt það. Við fórum að sjá myndina Ghost Rider með Nicholas Cage, ágæt mynd svosem hefði ábyggilega verið betri ef einhver annar en Nicholas Cage færi með aðalhlutverkið, en það er frekar erfitt þar sem hann átti víst stóran hlut í framleiðslu myndarinnar. Eftirá fórum við á sportsbar/grill og fengum okkur að borða þar en nánast öll fjölskyldan var þarna samankomin. Svo héngum við þarna frameftir kvöldi og skemmtum okkur konunglega. Jeff var búin að fá sér vel neðan í því og var kominn á þetta óþolandi stig þar sem hann hélt að hann væri óstjórnlega fyndinn....nema hann var ekkert fyndinn. Svo þegar við komum heim reitti hann af sér brandarana á meðan ég vildi ekkert frekar en fara að sofa hehe...En Jeff skemmti sér vel og það var takmarkið :)

Neyðarleg atvik fyrir unglinga!

rdin136lUnglingar tala oft um að foreldrar þeirra geri ýmislegt neyðarlegt sem skemmir mannorð ungrar sálar. Um daginn sá ég eitt fyndnasta atvik sem ég hef lengi séð og það hlýtur að skilja eftir einhver ör á sálinni. Það er staður ekki langt frá þar sem ég bý sem hefur búið til verslanagötu, ferlega kósí miðbæjarstemming. Ég og Nicki vorum að rápa á milli búða og fórum inn í eina fyrir stórar stelpur. Hérna í Ameríkunni geta stórar stelpur verið rosalega stórar og þessi búð fór vel upp í þær stærðir. Ég var að skoða fötin í makindum mínum þegar ég tek eftir þessari líka vel bústinni konu, sennilega í kringum 250 kg án gríns, nema hvað hún var með unglingsson sinn með sér að skoða nærföt sem áttu að vera sexy nærföt fyrir stórar konur en í staðinn voru meira g-strengs tjöld hehe, greyið strákurinn sat þarna rauður og blár biðjandi mömmu sína að drífa sig, en mamman var ekki á hraðferð og fór vandlega í gegnum nærfatavalið. Ég þurfti að taka vandlega á stóra mínum til að detta ekki niður á gólfið og emja af hlátri!!

Annars er plan komið á afmæli Jeffs, hann loksins ákvað hvað hann vildi í afmælisgjöf en það er dvd af uppáhaldsþættinum hans, í viðbót gef ég honum gjafakort í tölvubúð og ég er líka búin að tala við fjölskylduna hans og biðja þau að gera slíkt hið sama. Vonandi fara þau eftir því svo hann geti keypt sér eitthvað fallegt í tölvubúðinni :D 


Ferilskráin tilbúin

Núna er ferilskráin mín loksins tilbúin og yfirfarin til fullkomnunar! Með hjálp Nicki náðum við að búa til þessa fínu ferilskrá þar sem ég sæki að mestu leiti um "marketing assistant" eða aðstoðar markaðsfræðingur. Ég fer ansi fjálglega á köflum með reynslu mína og fegra starfsreynsluna mína til muna. Ég er nú þegar búin að sækja um nokkur störf svo það er bara að bíða og sjá hvað kemur út úr því. Sjáum hvort mér takist ekki að setja ferilskrána mína hérna á netið fyrir áhugasama sem vilja skoða ensku útgáfuna mína :)

Jeff er orðinn góður, okkur datt í hug að þetta væri ekki flensan heldur hafi hann borðað yfir sig af gúmmíbjörnum hehe, en hann vaknaði allt í einu upp um nóttina og þurfti að hella úr sér hálf meltum vökvum úr öllum holum og síðan ekkert meira. Þegar leið á næsta dag var hann orðinn vel hress biðjandi um hamborgara á meðan ég tróð ofan í hann Gatorate og heimtaði að hann borðaði ristað brauð í staðinn. Sú barátta endaði með að hann drakk gatorate, borðaði óristað brauð og fékk hamborgara hehe.

Ég fór svo í klippingu seinasta laugardag sem heppnaðist bara ágætlega, enda gerði ég ekkert sérstakt annað en að laga það til. Mér líkaði ekkert sérstaklega vel við stúlkuna sem klippti mig svo ég fer ekki til hennar aftur. Enda eru greyið hárgreiðslufólkið hérna að keppa við hana Laufey mína sem klippti mig í sennilega 7-8 ár og ég kom alltaf ánægð út! 

Planið á næstunni er að skipuleggja afmæli Jeffs sem er á föstudaginn en ég á enn eftir að finna afmælisgjöf handa drengnum. Ég hugsa að ég tala við fjölskylduna hans og fái þau til að slá saman í CompUSA gjafakort. Svo á miðvikudaginn er mágkona mín og tengdó að draga mig með á kynningarfund á einhverskonar pýramíd svindli, allavega virkar það þannig við fyrstu sín, en þar sem ég hef lítið betra að gera og það eru fríar veitingar þá ætla ég að fara með. Ég læt ykkur vita hvernig það fer eftir fundinn. En þær eru ansi fyndnar, það sem þetta virðist vera er að þú selur hópferðir í gegnum sérstaka vefsíðu, og vinnur að heiman sem þýðir að þú þurfir að eiga tölvu og kunna á hana. Tengdó kann ekkert sérstaklega vel á tölvur og mágkona mín, Michelle, á ekki tölvu og þeim finnst þetta hljóma voða sniðugt. Það sem ég sé í þessu er að þú þarft væntanlega að markaðssetja þetta sjálf með persónulegum contactum sem þýðir að þú þurfir að fara út meðal fólks sem hefur efni á meðaldýrum hópferðalögum hehe...allavega hljómar þetta eitthvað spúkí. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband